Vinnandi fólk eða vinnufólk?

Hvers konar samfélagi búum við í þar sem nær þriðjungur verkafólks nær ekki endum saman í mánuði hverjum?

Ný skýrsla Vörðu, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, málar upp mynd af efnahagslegri kreppu meðal stórs hluta almennings en samt hefur auðsöfnun í efstu lögum samfélagsins aldrei verið meiri. Það er því morgunljóst að róttæk sósíalísk stéttabarátta hefur aldrei verið þarfari.

72.500 af þeim 241.700 manns sem vinna launaða vinnu á Íslandi ná ekki að brúa bilið á milli útborgunardags launanna sinna og síðustu daga mánaðarins. Þessa daga sem allt lágtekjufólk kannast vel við. Dagana þar sem farið er í dósamatinn, þar sem farið er með flöskur í endurvinnslu til að nurla saman aukakrónum, þar sem gengið er á spariféð, lán fengin frá ættingjum og vinum eða farið er ofan í það hyldýpi sem eru skammtímalán og yfirdráttinn til að eiga fyrir þessum síðustu erfiðu dögum mánaðarins. Þriðjungur vinnuaflsins býr við slíkar aðstæður á Íslandi í dag. Sá hópur er raunar mun stærri þegar bætt er við öllum þeim sem reiða sig á örorku, lágan ellilífeyri og bætur af ýmsu tagi.

96.680 af launuðu verkafólki nær ekki að takast á við óvænt útgjöld upp á 100 þúsund krónur án þess að stofna til skuldsetningar. Sú tala jafngildir 4 af hverjum 10 sem vinna vinnu sína og eiga samt ekki fyrir óvæntum lágmarksútgjöldum sem koma reglulega upp í lífi alls venjulegs fólks.

Helmingur verkafólks, um 120.000 manns, býr ekki yfir sparnaði sem nemur hærra en ígildi mánaðarlauna sinna. Maður spyr sig hvernig því fólki, sem væntanlega stór hluti býr á leigumarkaði, á nokkurn tímann að takast að safna sér fyrir fasteignakaupum.

Þegar hlutföll launafólks sem berst í bökkum við efnahagslega afkomu sína á tímum síðkapítalismans er byrjað að telja marga tugi prósenta, tugþúsundir heimila, þá er samt um fleiri að ræða en bara lágtekjufólk.

Lífskjarakrísa og húsnæðiskreppa á góðæristímum hinna ríku

Áhrif lífskjarakrísunnar sem staðið hefur yfir undanfarin ár með öfgaverðbólgu, enn öfgafyllri ofurvöxtum og langvarandi húsnæðiskreppu í bakgrunninum er þannig byrjuð að klifra óþyrmilega hratt upp tekjustigann og velgja millitekjuhópum undir uggum.

Það er ekkert eðlilegt við það að þessi staða sé raunsönn á sama tíma og bankar, fjárfestingarsjóðir, leigurisar og stórfyrirtæki skila methagnaði uppá marga milljarða ár hvert.

Það er ekkert eðlilegt við það að á sama tíma hefur Ísland, eitt auðugasta land í mannkynssögunni, aldrei verið auðugra.

Ríkisstjórnir síðustu áratuga og til dagsins í dag, frá hægri til hinnar svokölluðu miðju, reka allar sömu aðhalds- og niðurskurðarstefnuna sem krefst jafnframt sífellt hækkandi gjaldheimtu á almenning sem á að stórum hluta til orðið afar erfitt með að fæða og klæða börnin sín, svo ekki sé minnst á að borga fyrir rándýrt þakið yfir höfuðið.

Þetta er bersýnilega brostin samfélagsgerð, en hvernig samfélagsgerð er þetta?

Samfélagsgerðin okkar byggir á auðvaldsskipulagi kapítalismans, samfélagsgerð þar sem hagsmunir hinna ríku og hagsmunir markaðsaflanna eru í ráðandi stöðu. Það endurspeglast í valdhöfum sem geta án þess að blikna ákveðið að skerða lífeyrisréttindi verkafólks til að borga fyrir bætt kjör öryrkja en dytti ekki í hug að innheimta frekar ofurhagnað hinna ofurríku í auknum mæli.

Þannig skiptir það engu máli fyrir hinn venjulega verkamann í kapítalísku samfélagi hvort frjálslyndir kratar eða íhaldssamir hægri menn eru við völd, áferðin kann að virðast önnur og afvegaleiðandi menningarpólitík dregur athyglina annað en eftir situr hin venjulega manneskja með lífskjör sem rýrna og skerðast ár frá ári, ríkistjórn frá ríkisstjórn, sveitarstjórn frá sveitarstjórn.

Kjósum þá til vinstri er það ekki?

Ef það væri aðeins svo einfalt. Því hvað skal kalla vinstri í dag er ekki einföld spurning.

Þar á meðal eru flokkar og fólk sem leggur allt kapp við dyggðaskreytingar og menningarstríð en virðist sjaldan hafa nokkuð um efnahagsmálin, einu allra mikilvægasta málefni almennings, að segja. Þar á meðal eru líka úlfar í sauðagæru sem undir gunnfána vinstrisins leiða til valda íhaldsflokka kapítalsins og skilja samfélagið sem og hið umtalaða vinstri eftir í molum þar sem hugmyndir voru seldar á slikk fyrir framapot og þægileg sæti við borðið.

Vinstrið virðist einnig geta teygt sig sem skilgreining til útópískra og á tímum barnalegra hugmynda um það hvernig gegnsæi, tækni og upplýsingar geta bjargað heiminum. Hvernig allt væri nú betra ef við myndum öll bara vita meira og hafa meira aðgengi að vitneskju um alla skapaða hluti. En það vinstri gleymir því oft að upplýsingar og miðlun þeirra má auðveldlega skrumskæla í kapítalísku samfélagi auðvaldsmiðla og hinna ofurríku. Frjálst flæði upplýsinga leiðir þá oftar af sér fullkomna óreiðu og frjósaman jarðveg falsfrétta, áróðurs og sundrungar, sem tækninýjungar í eign hinna ofurríku nýta til að snúa okkur gegn hvort öðru.

Svo eru það hófsamir vinstri menn sem nýta sér stimpilinn og tóma frasana til að sigra vinsældakosningar með umbótaloforðum, en umbæturnar eru jafnóðum sviknar um leið og sest er í ráðherrasætin. Kemur þá í ljós að hófsemi þeirra var ekkert annað en gríma sem duldi þrælslund gagnvart fjármagnseigendum.

Það sem einkennir allar þessar margvíslegu tegundir vinstrisins er alger skortur á hugmyndafræðilegum grunni. Á kjölfestu sem veitir bæði greiningartól, innri styrk og staðfestu þegar öldusjórinn gengur yfir í baráttunni gegn ofurvaldi hinna auðugu.

Það þarf minna vinstri og meiri sósíalisma

Sósíalísk sýn á samfélagið er á allt öðrum forsendum en sú samfélagsgerð sem við búum við í dag. Sýn þar sem húsnæðisöryggi handa öllum er sjálfgefið, þar sem aðgengi að góðri og gjaldfrjálsri menntun, heilbrigðisþjónustu og velferð eru sjálfsögð mannréttindi og þar sem enginn þarf að búa við efnislegan skort og andlega sem og líkamlega eyðileggjandi áhrif fátæktar.

Niðurstöður Vörðu varpa þannig ljósi á að fjórðungur lágtekjufólks á Íslandi býr við slæma andlega sem og líkamlega heilsu. Enda ekki að furða að stöðug og viðvarandi ógn við fjárhagslegt öryggi fólks og barnanna þeirra brjóti það sama fólk niður í stórum stíl.

Sósíalísk sýn á samfélagið byggir á grundvallar greiningu á kapítalískri samfélagsgerð sem skilur að kapítalisminn er í eðli sínu mannfjandsamlegur öllum þeim sem ekki tróna á efnahagslega toppnum. Sósíalísk sýn á hagkerfið sér að innbyggt í kapítalískt efnahagskerfi eru endalausar mótsagnir og öfl sem munu leiða til samfélagslegrar glötunar eftir að búið er að mylja verkafólk niður, tortíma náttúrunni og arðræna allt sem arðræna skal til að hagnast hinum fáu auðugu. Í hinu kapítalíska kerfi erum við öll vinnufólk, ekki vinnandi fólk.

Það liggur sósíalismanum til grundvallar að skilja að það er ekki hægt að treysta hægri öflunum, varðhundum kapítalsins, sama hvaða gervi þeir birtast í. Hagsmunir sósíalista og kapítalista munu alltaf vera andsnúnir. Í hugmyndafræðilegri festu sósíalista liggur líka sá skilningur að sannur styrkur almennings liggur í fjöldanum gegn ægivaldi peninganna. Það þarf því að sameina fólk um sameiginleg markmið, ekki sundra þeim á altari viðhorfa.

En um hvað sameinast fólk á tímum sem þessum?

Jú, meira en 70 þúsund manns eða þriðjungur launafólks getur sameinast um það að það er ekki eðlilegt að vinna fyrir sér en geta samt ekki náð endum saman.

40% vinnandi fólks eða 100 þúsund manns geta sameinast um að það er ekki eðlilegt að bróðurpartur launanna fari til okurleigusalanna eða gráðugra hluthafa bankanna í mánuði hverjum á sama tíma og þau eiga ekki fyrir óvæntum tannlæknareikningi.

Helmingur allra þeirra sem vinna á Íslandi geta sameinast um þá augljósu staðreynd að það er nauðsyn á róttækri endurhugsun í húsnæðismálum þegar sparifé þeirra nær aldrei að vaxa af því að þau búa við gróðadrifinn húsnæðismarkað.

Það er líka hægt að sameinast um þá hugsjón að það er ekki nauðsynlegt að reka alla velferðar- og heilbrigðisþjónustu í skorti og manneklu sem gerir hana dýrari og verri. Einkavæðingar- og útvistunarstefna á þeim grunnkerfum frá hægri til vinstri er ekki nauðsyn heldur pólitískt val.

Um þetta getum við öll sameinast og með þann sameiginlega skilning getum við breytt hlutunum.

Nýjustu greinar