Húsnæðisplástur kratanna

Nú hefur ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur kynnt sérstakan húsnæðispakka, aðgerðir sem ætlað er að vinna gegn þenslu, gera húsnæðisstuðning markvissari, einfalda regluverk, stuðla að aukinni húsnæðisuppbyggingu, o.s.frv., o.s.frv. Hugmyndir sem búið er að ljósrita svo oft að þær sjást varla lengur á blaðinu. Enda „löngu komið nóg af fögrum fyrirheitum og alls konar hugmyndum í húsnæðismálum,“ eins og hún orðaði það sjálf nýverið.

En Kristrún nefndi líka margháttaðar aðgerðir til að draga úr hvata til að fjármagnsvæða íbúðir, „meðal annars með því að loka glufum og draga úr undanþágum í skattkerfinu.“

Hún hefur talað á svipuðum nótum áður og árið 2022 var haft eftir henni í Heimildinni að „það sé eitt að fjárfesta í eigin húsnæði til að eiga samastað og búa við húsnæðisöryggi, annað þegar íbúðarkaup séu orðin fjárfestingarkostur fyrir ávöxtun.“ Ummælin eru tekin úr þingræðu þar sem hún sagði einnig að „nær væri að fólk með auka­fjár­magn fjár­festi í ein­hverju sem raun­veru­lega skapar hér verð­mæti og atvinnu­tæki­færi og heim­ilin væru látin í frið­i.“

Amen.

En ætli ég sé einn um að vera svartsýnn á að kratarnir vogi sér að hleypa loftinu úr hoppukastalanum, og það í miðri veislu? Kannski væri hægt að segja það að jafnvel minnstu aðgerðir til að stemma stigu við braskvæðingu húsnæðis séu af hinu góða, hversu fáar eða smáar, svo lengi sem eitthvað er að gert — en hættan er sú að slíkar aðgerðir væru af þeirra hálfu fyrst og fremst tilraun til að viðhalda sjúku kerfi, með því að tempra sóðaskapinn rétt nógu mikið til að koma í veg fyrir mótmæli á götum úti án þess þó að gera neinar grundvallarbreytingar. Aðgerðir sem væru þá eingöngu til þess fallnar að slétta úr krumpum á yfirborðinu á meðan raunverulega meinið fær að grassera undir niðri.

Pakkinn

Sumt í nýja pakkanum vekur bjartsýni, eins og fyrirhuguð uppbygging í Úlfarsárdal í samstarfi við Reykjavíkurborg. En félagslega miðaði hluti aðgerðanna er svo lítilvægur að hann virðist aðeins til málamynda, eins og 5% hækkun á stofnframlögum til óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga.

Annað virðist hreinlega eiga að gulltryggja hækkandi húsnæðis- og leiguverð, eins og skattahækkanir á leigutekjur sem fjárfestar munu velta beint yfir á leigjendur. Það að stoppa upp í glufur í skattkerfinu sem snúa að söluhagnaði á umframíbúðum eru nauðsynlegar aðgerðir og sjálfsagðar, en það verður að teljast ansi djarft að veðja öllu á að fjárfestar muni selja frá sér íbúðirnar þegar ekki er útlit fyrir annað en að íbúðarhúsnæði verði áfram mjög arðbær fjárfesting — þrátt fyrir að það eigi að draga aðeins úr dekri við braskarana.

Það sem Kristrún segir vera helstu breytinguna er mikil einföldun á byggingarreglugerð, og að er virðist einkavæðing á byggingareftirliti. Þetta er gert til að hraða húsnæðisuppbyggingu, sem er gott og blessað, en að óbreyttu bjóða breytingarnar upp á hagnaðarauka fyrir verktaka og áframhaldandi hækkun húsnæðisverðs. Enn og aftur þurfum við að horfa upp á stjórnvöld „ætlast til“ og „vænta þess“ að einkaaðilar dragi úr arðsemiskröfu sinni til hagsbóta fyrir almenning, en gefa þeim um leið algerlega frítt spil til að halda okrinu áfram.

Ástæður krísunnar

Í nýlegri umfjöllun Heimildarinnar um húsnæðismál var rætt við sérfræðinga um húsnæðiskrísuna og þeir tíndu til ýmsar ástæður eins og covid, fólksfjölgun, lóðaskort, lánþegaskilyrði, verðbólgu. Einn þeirra nefndi í framhjáhlaupi að fólk væri stundum í samkeppni við fjármagnseigendur um íbúðir og að það gæti verið ein af ástæðum þess að húsnæðisverð hefur hækkað eins mikið og raun ber vitni. Slædaði því inn svona eins og aukaatriði. En orðið spákaupmennska kemur hvergi fyrir í þessari umfjöllun.

Í fyrra voru sagðar fréttir af því að stór hluti af auknu íbúðaframboði endi í höndum fjárfesta, og á mælaborði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um eignarhald íbúða má sjá að hlutdeild fjárfesta á íbúðamarkaði eykst stöðugt ár frá ári. Þessir fjárfestar eru allt frá venjulegu, dagfarsprúðu fólki sem notar húsnæðismarkaðinn til að ávaxta sparifé og á kannski eina aukaíbúð, upp í stórtæka fjárfesta sem nýta sér krísuna til að kreista eins mikið og hægt er úr sem flestum leigjendum á sem stystum tíma.

Sérfræðingarnir virðast ekki hafa teljandi áhyggjur af þessu, og treysta því kannski að markaðslögmálin muni rétta stöðuna af, að vandamálið verði úr sögunni þegar tekst að byggja nógu mikið til að mæta eftirspurn.

En getur hugsast að ef við höldum áfram á sömu braut munum við uppskera meira af því sama?

Að svo lengi sem stjórnvöld hafa þá stefnu að húsnæði sé fyrst og fremst fjárfesting, þá þýði fleiri nýjar íbúðir lítið annað en aukin fjárfestingartækifæri fyrir auðstéttina? Aukið úrval „leigueininga“ fyrir stóru lögaðilana og fleiri sparigrísi í formi íbúða fyrir efri lög samfélagsins.

Ný nálgun á kostnað fjármagnseigenda

Eins og Kristrún gaf í skyn um árið, þegar hún var í stjórnarandstöðu, þá þarf algerlega nýja nálgun í húsnæðismálum. Félagslega nálgun þar sem hagsmunir almennings eru teknir fram yfir hagsmuni fjárfesta og braskara. Í stað þess að fjárfestar byggi fyrir aðra fjárfesta, þá þurfum við að nota sameiginlega sjóði til að byggja húsnæði fyrir fólk sem þarf á því að halda. Slíkar aðgerðir yrðu ekki að kostnaðarlausu þeim sem græða á núverandi stefnu stjórnvalda, því stórtæk húsnæðisuppbygging á félagslegum forsendum myndi leiða til lækkunar á húsnæðis- og leiguverði.

Þau tala á þeim nótum að nýkynntar aðgerðir muni leiða til lækkunar á húsnæðisverði, en byggja það á vægast sagt hæpnum forsendum. Enda vitum við vel að sú ríkisstjórn sem nú situr mun ekki beita sér gegn hagsmunum fjármagnseigenda af neinni alvöru. Allar aðgerðir líklegar til þess að lækka húsnæðisverð svo um muni yrðu slegnar út af borðinu, kannski undir því yfirskini að það þurfi að gæta að efnahagslegum stöðugleika, standa vörð um heimilin í landinu o.s.frv.

Sú stefna að gera almenning að fjárfestum, hugmynd nýfrjálshyggjunnar sem hefur leynt og ljóst verið stefna stjórnvalda í áratugi, gerir það að verkum að sá hluti almennings sem á eitthvað í sínu húsnæði telur hag sínum best borgið með húsnæðisstefnu sem hyglir fjármagnseigendum á kostnað almennings. En hópurinn sem situr eftir fer ört stækkandi og heilu kynslóðirnar sjá núna fram á það að geta aldrei „fjárfest“ í eigin húsnæði. Þannig mun renna upp fyrir sífellt fleirum að hagsmunir almennings og fjármagnseigenda fara ekki saman, og geti ekki farið saman. Að til að gæta hagsmuna almennings þurfi það að bitna með einum eða öðrum hætti á auðstéttinni.

Afleiðingar núverandi stefnu þýða líka að róttækar aðgerðir í húsnæðismálum myndu bitna að einhverju leyti á venjulegu fólki, þeim sem hafa komist inn á markaðinn með naumindum og eiga lítið en skulda mikið. En verkefni stjórnvalda yrði að koma til móts við þennan hóp.

Íbúðauppbygging af þeirri stærðargráðu sem þyrfti til að mæta uppsöfnuðum vanda myndi hafa afgerandi áhrif á bæði húsnæðis- og leiguverð, sérstaklega væri hún á félagslegum forsendum en ekki forsendum markaðarins. Fjármagnseigendur myndu berjast á hæl og hnakka gegn slíkri uppbyggingu, senda varðhunda Viðskiptaráðs til að gelta og góla í öllum miðlum, panta sérfræðinga til að lýsa yfir áhyggjum og draga upp ógnvekjandi sviðsmyndir.

Valdastéttin mun beita sér af öllu afli gegn grundvallarbreytingum í húsnæðismálum, vegna þess einfaldlega að núverandi ástand er draumur í dós fyrir þau efnameiri. Sumar af húsnæðisaðgerðunum sem ríkisstjórnin boðar gefa til kynna að þau geri sér grein fyrir vandamálinu, og að þeim líst ekki á blikuna, en þeim mun aldrei takast að leysa húsnæðisvanda almennings. Til þess þyrfti að stíga á tær auðstéttarinnar og það fast, og það munu kratarnir aldrei gera.

Nýjustu greinar