Vanþekking alþingismanna merki um skort á stjórnmálakennslu í skólum

Snorri Másson þingmaður Miðflokksins segir „marxískt hugarfar" valda því að kennsla á ritum Halldórs Laxness fari minnkandi í framhaldsskólum landsins og að sama marxisma sé um að kenna að ekki megi lengur leiðrétta málfarsvillur nemenda því það kunni að valda þeim vanlíðan. Laxness var sósíalisti og marxisti sem heimsótti meðal annars Moskvu á tímum Sovétríkjanna.

Þetta kom fram á fundi Alþingis í gær, þar sem Snorri ræddi frétt Morgunblaðsins, sem átti að sýna hvernig kennsla á verkum Halldórs Laxness hafi minnkað umtalsvert á síðustu árum. Meðal annars sagði hann: „Það er skandall að mínu mati að fólk geti almennt útskrifast með stúdentspróf án þess að lesa bók eftir Halldór Laxness," Og bætir síðan við: „Þetta er hluti af sama marxíska hugsunarhætti um málvillur, að það megi ekki leiðrétta þær vegna þess að þá kynni einhverjum einhvers staðar líða illa. Að þar með bara gefist upp á fögru máli.”

Seint verður sagt um Halldór Laxness, að hann hafi farið eftir ströngum málfarsreglum íslenskunnar auk þess að hafa verið marxisti sjálfur lengst af ævi sinnar í það minnsta. Laxness var á svörtum lista Bandarískra yfirvalda sem njósnuðu um hann því þau óttuðust sósíalískar skoðanir Nóbelsverðlauna skáldsins. Snorri Másson kennir engu að síður marxisma um að kennsla á verkum Laxness fari minnkandi í framhaldsskólum landsins. Raunar virðist sem svo að marxisma sé kennt um allt sem miður fer samfélaginu í dag, samkvæmt Miðflokknum en ekki síður samkvæmt hægrinu víða á hinum kapítalísku Vesturlöndum. Sósíalistar yrðu fyrstir til að fagna ef í ljós kæmi að samfélaginu væri raunverulega stjórnað af marxistum. Því er þó víðs fjarri. Þvert á móti standa sósíalistar frammi fyrir miklum vanda. Marxisminn er nefnilega gott sem horfinn á Vesturlöndum eftir áratugi af áróðri og nýfrjálshyggju.

Ekki er ljóst hvað málfarsvillur eða skortur á leiðréttingu þeirra hafi að gera með marxisma annað en það að vera uppnefni sem hægrið beitir stöðug og notar gegn öllum sem eru til vinstri við Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Snorra Másson. En kannski er eitthvað til í því að víða sé pottur brotinn í hinu íslenska menntakerfi þegar alþingismenn þjóðarinnar kunna ekki að gera greinarmun á helstu stefnum og straumum innan stjórnmálanna og virðast ekki þekkja stjórnmálaskoðanir eins þekktasta sósíalista landsins fyrr og síðar, sjálfs Halldórs Kiljan Laxness.

Nýjustu greinar