Úlfakreppa í leikskólamálum

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, var gestur í fyrsta þætti af Rauðum raunveruleika í síðustu viku sem gefinn er út af Málgagninu. Viðtalið fer vítt og breitt yfir pólitíska sviðið en stór hluti þess er tileinkaður leikskólamálum.

Álag í leikskólum í Reykjavík er að gera út af við starfsfólk sem vinnur mikilvæga en erfiða og illa launaða vinnu. Aukin gjaldheimta á lægri tekjuhópa í kjölfar langvarandi dýrtíðar og húsnæðiskreppu er mörgum foreldrum ógnvænleg.

Þetta er úlfakreppan sem leikskólamál í Reykjavík eru orðin að og hafa kannski alltaf verið.

Ástandið í leikskólamálum í Reykjavík hefur lengi verið hörmulegt. Mikill og langvarandi skortur á leikskólaplássum, vanhugsuð og illa útfærð stytting vinnuvikunnar fyrir leikskólastarfsmenn, vanfjármögnun, undirmönnun og gífurlegt álag á þá starfsmenn fyrir vikið er staða sem bæði foreldrar og starfsfólk þekkja orðið vel.

Á sama tíma grasserar brask í einkarekstri leikskóla víða um borgina og gjaldheimta á foreldra er töluverð.

Reykjavíkurleiðin og andstæðar fylkingar

Allt hefur þetta verið í umræðunni síðustu vikuna í kjölfar tilkynningar meirihlutans í Reykjavík um stefnu sína í leikskólamálum sem fer nú í samráðsferli áður en hún verður innleidd.

Stefnan hefur vakið sterk viðbrögð og stillt upp tveimur andstæðum fylkingum leikskólastarfsmanna og hagsmuna þeirra annars vegar, og hins vegar foreldrum og þeirra hagsmunum. Leiðtogar stærstu stéttar- og verkalýðsfélaganna hafa stillt sér upp í þessu máli, flestir hafa fordæmt þessa nýju stefnu alfarið en formaður Eflingar, Sólveig Anna, hefur gagnrýnt þá einstrengingslegu fordæmingu þeirra þar sem ekki hefur verið leitað álits leikskólastarfsmanna né félagsfólks þessara stéttarfélaga.

Efling hefur af þeim sökum lagt málið í innri skoðanakönnun meðal síns félagsfólks til að fá þeirra álit, en vel yfir þúsund ófaglærðir leikskólastarfsmenn eru skráðir félagar í Eflingu. Niðurstöður könnunarinnar voru mjög skýrar, meirihluti styður breytingarnar og tillögur starfsfólks um bættar aðstæður voru afdráttarlausar; það þarf fleira starfsfólk og meira fjármagn í leikskólana.

Þörfin er mikil á aðgerðum í þágu leikskólastarfsmanna og barna eins og leikskólastarfsfólk bendir sjálft á og það væru mikil mistök að hunsa eða leiða það alfarið hjá sér.

Í grunninn byggir þessi stefna á því að því lengur sem foreldri þarf að vista barnið sitt á leikskóla yfir daginn því meira verður viðkomandi rukkaður en þeir sem hafa hærri tekjur eru rukkaðir meira en þeir sem hafa lægri tekjur.

Hugsunin um að létta á álagi á leikskólastarfsmenn er góð og þörf, á því er enginn vafi. Hins vegar er sú útfærsla að rukka foreldra með íþyngjandi gjöldum ef þeir vista börnin sín lengur á daginn mjög gölluð í þessari stefnu borgarinnar.

Þannig gerir borgin ráð fyrir því að fólk sem visti börnin sín lengur á daginn sé að gera það sem valkost en ekki af illri nauðsyn. Flestir foreldrar líkt og flest launafólk vinnur á almennum vinnumarkaði og þar er stytting vinnuvikunnar afar sjaldgæf.

Stefnan miðar þó að því að hinir allra tekjulægstu borgi minna og þeir tekjuhæstu borgi meira. Sem er alveg eðlilegt, skattkerfi eiga að virka á þann hátt að þeir sem hafi meira á milli handanna borgi meira inn í kerfin sem þeir nota og gjaldheimta er bara annað form af skattheimtu.

Tekjuviðmiðin eru galin

Hækkanir á gjöldum, gangi þessi nýja stefna eftir, byrja strax og manneskja er að fá 542 þúsund eða meira í laun og auk þess af einhverjum stjarnfræðilega gallsúrum ástæðum, þá reiknast hækkunin mest á einstæða foreldra.

Þannig mun einstætt foreldri með til dæmis 550 þúsund í laun fá raunhækkun á leikskólagjöldum upp á 48%.

Í krónutölum þýðir það að gjöld fyrir 8 tíma langa dagvistun sem í dag eru tæplega 23 þúsund krónur á mánuði fyrir einstætt foreldri munu hækka upp í tæplega 34 þúsund krónur eða um 11 þúsund krónur.

Höfum það í huga að einstætt foreldri vinnur oft meira en eina vinnu til að ná endum saman og ef viðkomandi er aðeins að þéna 550 þúsund á mánuði þá á eftir að draga frá skatta, gjöld, lífeyri, himinháar leigugreiðslur (eða afborgun húsnæðisláns) og alla aðra reikninga sem fylgja tilverunni í þessu landi okkar.

Þessi hækkun á leikskólagjöldum eins og hún er reiknuð út að falli sérstaklega þung á einstæða foreldra er því algerlega út úr kú.

Þar fyrir utan er það einfaldlega svo að 550 þúsund krónur eru ekki há laun í dag og duga varla fyrir lágmarks útgjöldum í því árferði sem nú er til staðar, hvað þá ef viðkomandi er einstætt foreldri.

Gjöldin hækka á sama tíma á fólk í sambúð eða hjónabandi en langtum minna og í öllum tekjuflokkum eru hækkanirnar mestar á einstæða foreldra sem getur ekki undir neinum kringumstæðum verið eðlileg og góð stefna.

Stéttaforréttindi og hræsni

Það þarf að bæta aðstæður leikskólastarfsfólks og það þarf að bæta þeirra kjör og þeirra stytta vinnuvika þarf að geta gert líf þeirra betri, ekki verri. Sólveig Anna hafði orð á konu sem kvaðst óska þess að undið yrði einfaldlega ofan af styttingu vinnuvikunnar - svo illa hefði hún komið niður á leikskólastarfinu.

Styttingin nýtist skrifstofufólki hins opinbera afar vel þar sem skjölin geta alltaf beðið næsta dags. Börnin sem leikskólastarfsmenn sjá um og annast, þau fara ekki neitt, eins og Sólveig benti á.

Þannig birtist líka stéttaskiptingin að fólk í störfum sem krefjast ekki líkamlegs og andlegs erfiðis nýtur umbóta en fólkið sem stritar hvað mest fær það sjaldan. Þá tekur það á sig furðulega mynd þegar andstaðan við þessa leikskólastefnu er réttlætt með vísun í bakslag réttinda kvenna, því það lendi fremur á mæðrum að þurfa að sjá um börnin sem þyrfti að sækja enn fyrr í leikskólann en áður. En í þeirri umræðu gleymast iðulega leikskólastarfsmennirnir sem eru að yfirgnæfandi meirihluta konur, konur sem vinna erfið störf sem stytta lífslíkur þeirra verulega og valda þeim í mörgum tilvikum alvarlegri örorku síðar á lífsleiðinni.

Moldríki fíllinn í herberginu

Það má tekjutengja gjöld þó best væri farið að gera það beint með skattkerfinu sjálfu og þannig fjármagna innviði samfélagsins. Það sem meira er vert að ræða er þó þörfin á að skattleggja auð fremur en vinnandi fólk.

Að skattleggja fjármagnstekjur til jafns við launatekjur og veita hluta þess í útsvar til sveitarfélaganna líkt og með tekjuskatt væri þannig strax gríðarleg breyting sem myndi auka tekjumöguleika sveitarfélaga til að takast á við leikskólamálin og aðra málaflokka.

Aukið fjármagn í leikskólana getur fjölgað starfsfólki, farið í betri launakjör, fært þeim aftur neysluhlé sín og gert þannig ástandið langtum betra. Að því ónefndu að byggja fleiri leikskóla til að fjölga plássum og þannig minnka álagið á hvern og einn leikskóla.

Þá þarf auðvitað að lögbinda styttri vinnuviku fyrir landið allt, ekki bara opinbera starfsmenn.

Það þýðir hins vegar ekki að ekkert megi gera fyrir leikskólastarfsmenn núna. Innleiða má þessa nýju stefnu en mikilvægt er að aukin greiðslubyrði falli í það minnsta ekki verst á einstæða foreldra.

Þá má leggja aukna gjaldheimtu með þessum hætti fram en undanskilja fólk sem getur skilað inn vottorði þess efnis að þau vinni fulla vinnu án styttingar eins og gert er í Svíþjóð.

Þá má alveg fækka verkefnastjórum, mannauðsstjórum og millistjórnendum og ráða þess í stað langtum fleiri leikskólastarfsmenn. Ráða þá fólk í hlutastörf sem dekka síðasta hluta dagsins svo að starfsfólk í fullri vinnu geti farið fyrr heim.

Það er hægt að hugsa þetta öðruvísi og það núna strax án þess að hafna breytingunum alfarið eða styðja þær í heild í núverandi meingallaðri mynd.

Hvað með börnin?

Þetta snýst jú líka um börnin og þeirra velferð. Það er alveg rétt sem bent er á að Íslendingar slá met í lengd dagvistunar barna sinna og það er ekki gott. Aukin samvera barna með foreldrum er samfélagslega mikilvægt markmið. Spurningin er þó hvort að skert fjárhagslegt öryggi, hvort sem er vegna hærri leikskólagjalda eða tapaðra tekna þar sem fólk þarf að fara fyrr úr vinnunni, sé gott fyrir andlega vellíðan foreldra og barna.

Þarna hlýtur að liggja til grundvallar þörfin á að stytta vinnutíma allra. Leiðtogar ASÍ, BSRB og VR og margra fleiri stéttarfélaga sem eru andsnúnir þessari stefnu ættu þá að fylgja andstöðu sinni eftir með algerri samstöðu um að heimta og krefjast styttri vinnuviku fyrir almennan vinnumarkað og það strax.

Það er komið nóg að almenningur og börnin þeirra fórni eigin hag og velferð til þess eins að næra endalaust atvinnurekendur og þeirra óendanlegu arðsemiskröfur.

Það er rétt sem Sólveig Anna segir að það er óboðlegt að segja bara „nei“ við breytingunum en leggja ekkert fram í staðinn, því álagið á leikskólastarfsmenn hverfur ekki.

Sem er nátengt velferð barnanna líka. Það er ekki til að efla vellíðan og stuðla að heilbrigðu umhverfi barna að hafa undirmannað og vanfjármagnað leikskólakerfi þar sem kengbognir, sveittir og stressaðir starfsmenn berjast í bökkum við að umannast alltof mörg börn á hvern starfsmann.

En það er þá líka eitthvað sem þessi nýja stefna breytir ekki. Já þetta gæti stytt vinnudaginn loksins hjá leikskólastarfsfólki, en fjöldi barnanna og starfsmannanna breytist ekki. Kjör þeirra batna ekki. Töpuð hvíldaráhrif neysluhlésins sem þau þurftu mörg hver að gefa upp á bátinn til að fá kostnaðarlausa styttingu vinnuvikunnar (í sjálfu sér galin stefna) hverfa ekki. Þau vandamál verða enn til staðar.

Á sama tíma munu efnaðir foreldrar eiga létt með að borga bara hærri gjöld og halda dagvistuninni langri. Á meðan að tekjuminna fólk og einstæðir foreldrar, neyðast til að fórna verulega. Áfram mun skrifstofufólkið hjá hinu opinbera með sinn stytta vinnutíma njóta góðs þar sem eðli þeirra vinnu gerir þeim auðvelt fyrir.

Það þarf betri nálgun og miklu betri útfærslu um leið og það þarf að rétta hag starfsfólksins. Það er því tækifæri til að þrýsta á stýrihópinn hjá borginni sem er núna með stefnuna á sínu borði um að gera þetta betur. Umfram allt þurfum við skýrari framtíðarsýn.

Sjá þáttinn hér: Verkalýðsbarátta á tímum kratískra stjórnmála

Nýjustu greinar