Mun fleiri búa við fátækt en hinn almenni borgari gerir sér grein fyrir.
Stór hluti öryrkja, aldraðra, einstæðra foreldra og innflytjenda glíma við fátækt.
Stærri hópur fólks en almenningur gerir sér grein fyrir er svokallaðir „working poor“ eða vinnandi fátækir.
Og er ég þá að tala um fólk í láglaunastörfum sem jafnvel eru í 2-3 vinnum til að hafa í sig og á, en strögglar samt við að láta enda ná saman.
Margir úr þeim hópum sem ég taldi hér upp að ofan geta ekki leyft börnum sínum að vera í tómstundum af neinu tagi, margir þurfa að neita sér um að fara til læknis, tannlæknis, í sjúkraþjálfun, leysa út lyf eða annað sem nauðsynlegt getur talist. Hvað þá að þau geti leyft sér að fara í klippingu, snyrtingu, bíó, leikhús, tónleika eða aðra skemmtun sem mörgum þykir sjálfsagt að sé reglulegur viðburður.
En hvað er það sem veldur? Hvers vegna er fátækt í jafn auðugu landi og Ísland raunverulega er?
Svarið er í titli greinar þessarar. Stjórnvöld hafa síendurtekið horft framhjá þeim verst settu í þjóðfélaginu, meðal annars með því að skera niður fjármagn í almannatryggingakerfið, heilbrigðisþjónustuna, félagsþjónustuna og svo mætti lengi telja. En á sama tíma grípa þau til fjárfrekra aðgerða til að „bjarga“ sem dæmi, bönkum, einkareknum fyrirtækjum eða öðrum aðilum sem eini tilgangur er að hagnast á þeim sem minnst mega sín.
Á sama tíma hækkar matarkarfan í hverjum mánuði um marga þúsundkalla að ekki sé minnst á aðrar nauðsynjar eins og rafmagn, hita, samgöngur, fatnaður, tómstundir, nám, leikskólagjöld.
Stýrivöxtum er haldið uppi af ástæðum sem enginn virðist hafa haldbæra skýringu á, sem bitnar verst á jaðarsettustu hópum samfélagsins, fólk kemst ekki í gegnum greiðslumat en á samt að geta staðið undir leiguverði sem er jafnhátt eða hærra en afborganir lána væru. Þetta festir fólk á grimmum leigumarkaði, sem fjársterkir aðilar hagnast á, á meðan efnaminna fólk heldur áfram að ströggla. Hvernig er hægt að réttlæta þessa framkomu?
Fátækt er ekki val og hefur aldrei verið, ekki frekar en það er val að missa heilsuna og geta ekki séð sér farborða á sama hátt og áður, eða verða fyrir áfalli sem kostar það aleiguna.
Sumar fjölskyldur hafa lifað við fátækt kynslóð fram af kynslóð með takmörkuðum möguleikum á að koma sér út úr aðstæðunum. Auk þess sem fólk í fátækt hefur ekki sömu möguleika á að leggja fyrir og aðrir, af augljósum ástæðum
Ég sjálf er alin upp í fátækt og var farin að vinna 10 ára gömul, ég hafði takmörkuð tækifæri til náms af bæði efnahagslegum orsökum og veikinda sem ég hef nýlega fengið greiningu á. Og hef ég því ekki lokið stúdentsprófi en tókst fyrir nokkrum árum að komast í gegnum bókaranám með dyggri aðstoð góðs vinar. Ég hef alla tíð unnið líkamlega erfiða vinnu, sem sleit mér út langt fyrir aldur fram. Ég fór 3 sinnum í gegnum greiðslumat, en tölvan sagði nei, samt var ég að borga margfalt meira í leigu en ég hefði greitt af lánunum.
Kerfið er ekki að virka fyrir fátækt fólk og það er kominn tími til að breyta því !
Höfundur er mamma, amma, hundaeigandi, formaður Kjarahóps ÖBÍ, öryrki, þjálfari, og Sósíalisti.



